Auro arkitek-túr
Við keyptum í gær skemmtilega bók um arkitektúr í Auroville. Hér eru mörg mjög svo flippuð híbýli enda sækja hingað margir arkitektar sem hafa látið heillast af þessu opna og skapandi samfélagi. Þar sem við vorum forvitin að berja sum þessara húsa augum fórum við í dag í svokallaðan arkitek-túr um Auroville.
Það eru ekki bara húsin sem eru öðruvísi og skemmtileg, hverfin í Auroville heita flest furðulegum og frumlegum nöfnum. Kannski að einhverjum finnist það tjull og pjátur, mér finnst það gefa lífinu lit. Hver myndi ekki vilja búa í hverfinu Aspiration eða New Creation? Silence og Discipline höfða örugglega til einhverja, Existence og Sincerity til annarra. Sjálf búum við á stað sem kallast Isaiambalam – hvað sem það er þá er mjög gaman að ná tökum á framburðinum.
Við byrjuðum á því að rúnta að ALL (Auroville Language Laboratory) sem er rúnuð bygging og minnir helst á litlu sveppahús Strumpanna. Því næst lá leið okkar til Auromodèle þar sem Ingibjörg og Víðir bættust í hópinn. Saman rúntuðum við um vegi hverfisins og stöldruðum víða við til að taka myndir og virða fyrir okkur arkitektúr, náttúruna.
Við kíktum að lokum í New Creation og gengum aðeins um með myndavélina. New Creation er menningarhverfi Auroville og þar eru margir skemmtilega hannaðir skólar. Við rákumst á sæta krakka í lúsaleit upp við einn skólavegginn. Þar spurði einn okkur hvort við töluðum frönsku. Tu parle française? spurði ég gáttuð og gutti svaraði játandi. Ég sagðist tala smá, petit peu.
Í lok dags bauð Baldur okkur í trópíkal kombó sem var mjög gott. Túnfiskurinn með banönum og ananas var borinn fram með soðnu skrúfupasta og tómatsósu (þó ekki ketsjöp). Í forrétt var papaya með límónusafa og í eftirrétt var brownie og mjólkurglas. Í bland við það var skemmtilegt spjall og góð tónlist. Þau voru hrifin af litlu íbúðinni okkar sem gerði okkur enn ánægðri með hana, svona er þetta alltaf :0)